Fréttabréf 2017

Fréttabréf Ferðafélags Austur – Skaftfellinga 2017.
Kæru félagar.
Þá er komið að hinu árlega fréttabréfi Ferðafélags Austur-Skaftfellinga. Með útgáfu fréttabréfsins viljum við kynna starfsemi félagsins og helstu verkefni þess. Aðalfundur félagsins var haldinn í Gömlubúð 18. apríl síðastliðinn.
Þær breytingar urðu í stjórn að Trausti Magnússon gaf ekki kost sér sem gjaldkeri. Í hans stað kom Björk Pálsdóttir. Ragna Pétursdóttir, Elsa Gerður Hauksdóttir og Helga Árnadóttir gáfu ekki kost á sér í ferðanefnd. Í þeirra stað komu þau Jóhannes Hjalti Danner og Ingibjörg Guðmundsdóttir. Þökkum við þeim Trausta Magnússyni, Rögnu Pétursdóttur, Elsu Gerði Hauksdóttur og Helgu Árnadóttur fyrir ánægjulegt samstarf og bjóðum jafnframt Björk Pálsdóttur, Ingibjörgu Guðmundsdóttur og Jóhannes Hjalta Danner velkomin til starfa.
Stjórn og nefndir eru því þannig skipaðar:
Stjórn:
Magnhildur Pétursdóttir formaður

Sigrún Harpa Eiðsdóttir ritari

Björk Pálsdóttir gjaldkeri

Jón Bragason meðstjórnandi og fulltrúi skálanefndar

Hrafn Margeir Heimisson meðstjórnandi og fulltrúi ferðanefndar

Skálanefnd:

Álfgeir Gíslason

Jón Bragason

Kristinn Guðmundsson

Ferðanefnd:

Hrafn Margeir Heimisson

Ingibjörg Guðmundsdóttir

Jóhannes Hjalti Danner

Það helsta á liðnu ári 2016. Þátttaka í ferðum félagsins var svipuð og undanfarin ár. Tvær nýjungar voru á síðasta ári: „Hlaupaferð“. Þar sem hlaupin var ca 10 km leið í krefjandi landslagi og „Barnaferð“. En þar fengu börnin að upplifa náttúruna frá sínu sjónarhorni, skoða blómin, vaða læki og læra að ganga eftir merktum stígum.
Rekstur Múlaskála gekk ágætlega. Umferð göngufólks á Lónsöræfi byrjaði með seinna móti eða ekki fyrr en um miðjan júlí en stóð þeim mun lengur fram eftir ágúst.
Nýtt hreinlætishús sem saman stendur af tveimum vatnssalernum, tveimum sturtum og geymslu var tekið í notkun um mitt sumar. Aðstaða við Múlaskála er með því besta sem gerist í afskekktum fjallaskálum. Einnig var gerður tengipallur á milli skála og hreinlætishúss.
Símasamband komst á í Múlaskála og Múlakoti er líða tók á sumar. En þar sem áður uppsettur sendibúnaður á Illakambi var ekki að virka sem skildi, var ráðist í það að flytja áður uppsettan búnað upp að vörðu á há Kjarrdalsheiði til að ná betri speglun úr byggð, einnig var búnaður sem var í Múlaskála fluttur út í Gjögur til að ná speglun frá sendi á vörðu. Virðist þessar breytingar lofa góðu og bindum við vonir um að símasamband verði varanlegt. Jón Hermannsson formaður fjarskiptadeildar björgunarsveitanna og mikill áhugamaður um fjarskipti vann að þessu með félaginu. Á hann okkar bestu þakkir skilið fyrir aðstoðina.
Gönguárið 2017. Eins og endranær er metnaðarfull ferðadagskrá fyrir árið 2017. „Hjólaferð“ er nýjung ársins og á að hjóla gamla þjóðveginn yfir Lónsheiði. Gönguvikan er á sínum stað dagana 5. – 9. júní með mörgum skemmtilegum leiðum ásamt óvissuferð um Jónsmessu. Tvær helgarferðir eru í boði; önnur um Suðurland helgina 21. – 23. Júlí, þar sem gist er í Seljalandsskóla og hin er um uppsveitir Árnessýslu 25. – 27. ágúst. Farið verður meðal annars í Kerlingarfjöll. Skrá þarf í þessar ferðir. Tvær langar ferðir eru einnig á dagskrá. „Sæludagar á Lónsöræfum“ 7. – 9. júlí. Uppselt er í þá ferð. Og fjögurra daga ferð þar sem gengið er úr Álftafirði yfir í Lónsöræfi um Víðidal, 9. – 12. ágúst. Enn er laust í þá ferð. Nánari upplýsingar um ferðirnar eru á heimasíðu félagsins www.gonguferdir.is eða facebooksíðu.
Vinnuferð er í Múlaskála 16. júní. Þeir sem hafa áhuga að koma í vinnuferð skrái sig hjá Möggu 8687624, Jón 8481985.
Bókanir og uppl. um Múlaskála. Heimasíða félagsins www.gonguferdir.is ferdafelag@gonguferdir.is ; maggape@simnet.is eða Magga 868 7624
Skálavarsla. Skálaverði vantar við Múlaskála valda daga. Áhugasamir hafi samband við Möggu 868 7624 eða maggape@simnet.is
Landvörður á Lónsöræfum í sumar er: Guðmundur Árnason.
Heimasíða: Heimasíða félagsins og bókunarkerfi er. www.gonguferdir.is
Árbókin. Árbókin er komin út. Bókin er innifalin í árgjaldi félagsins. Árgjald er 7600 kr og verður rukkað í gegnum heimabanka félagsmanna. Þeir félagsmenn sem ekki hafa heimabanka geta greitt árgjaldið inn á reikning félagsins. 0169 – 15 – 200363 kt. 490295 – 2169. Skýring greiðslu: Árgjald. Bókin ásamt félagsskírteini verður borin út um leið og greiðsla hefur borist.
Ferðafélag Austur-Skaftfellinga vill svo þakka öllum sjálfboðaliðum og velunnurum sínum kærlega fyrir ánægjulegt samstarf og samveru í starfi félagsins. Hlökkum til að vera með ykkur. Ferðafélagskveðjur.